Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 527/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 527/2021

Mánudaginn 26. janúar 2022

A

gegn

B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 11. október 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun B, dags. 23. september 2021, um að hafa ekki frekari afskipti af og loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) vegna sonar kæranda, C.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn C er rúmlega X ára gamall en hann er sonur kæranda og D. Foreldrar drengsins fara með sameiginlega forsjá. Mál drengsins hófst vegna tilkynningar frá sálfræðingi hans þann 26. apríl 2021.

Í greinargerð Barnaverndar E um könnun málsins, dags. 13. september 2021, kemur fram að tilkynning hafi borist frá sálfræðingi heilsugæslu. Í tilkynningunni hafi komið fram að foreldrar drengsins væru fráskilin og samskipti þeirra á milli erfið. Langvarandi ósætti og skortur á samvinnugrundvelli þeirra væri farið að koma niður á hagsmunum drengsins. Í greinargerðinni kemur fram það mat starfsmanna B að drengurinn lýsi ekki sömu vanlíðan og hann hafi lýst í viðtölum hjá sálfræðingi en við könnun máls hafi komið fram að drengnum líði vel og að hann verði lítið var við deilur foreldra sinna. Ekki sé þörf á frekari afskiptum af hálfu B og lagt til að málinu verði lokið.

Á fundi B 14. september 2021 var ekki talin ástæða til frekari afskipta af málinu og var því lokað með ákvörðun þann 23. september 2021.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 11. október 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. október 2021, var óskað eftir greinargerð B ásamt gögnum málsins. Greinargerð B barst nefndinni með bréfi þann 16. nóvember 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar þann sama dag var hún send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust þann 29. nóvember 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. nóvember 2021, voru athugasemdir kæranda sendar B til kynningar. Viðbótargreinargerð barst frá B þann 13. desember 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. desember 2021, var hún send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 3. janúar 2022 og voru þær sendar B til kynningar með bréfi, dags. 4. janúar 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir að barnavernd opni mál barnsins aftur og geri áætlun um stuðningsúrræði. Til vara krefst kærandi þess að barnavernd hefji könnun á nýjan leik, ræði við barnið og aðila máls út frá öllum upplýsingum sem barnavernd hafi undir höndum og afli nýrra gagna, sé þörf á því.

Kærandi greinir frá því í kæru að hann telji að barnavernd hafi ekki aflað nauðsynlegra gagna við könnun máls og hafi hunsað alvarleg teikn um að andlegri heilsu barnsins sé hætta búin. Ástæða fyrir könnun barnaverndar hafi verið tilkynning sálfræðings um líðan barnsins og út frá tilkynningu hafi verið rætt við móður, kæranda og barnið. Ekki hafi verið upplýst um hvaðan frekari upplýsingar hafi verið sóttar. Á meðan könnun máls hafi staðið yfir og eftir að talað hafði verið við barnið hafi nýjar upplýsingar borist sem hafi gefið til kynna mikla vanlíðan barnsins, þar á meðal sjálfsvígstal- og hugsanir, en þrátt fyrir það hafi starfsmaður barnaverndar ekki rætt við barnið aftur og aðbúnaður hans á heimilum hafi ekki verið kannaður samkvæmt bestu vitund kæranda, að minnsta kosti hafi ekki verið komið inn á heimili kæranda og stjúpmóður.

Kærandi telji því könnun máls alls ekki vera fullnægjandi út frá upplýsingum sem barnavernd hafi haft undir höndum, sbr. 22. gr. barnaverndarlaga. Kærandi hafi óskað eftir öllum málsgögnum en ekki enn fengið aðgang að þeim. Einnig telji kærandi að farið hafi verið gegn meginreglu 9. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 56/2004 um að ekki hafi verið beitt þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu. Enn fremur hafi ekki verið farið eftir 16. gr. reglugerðarinnar þar sem hann telji að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun hafi verið tekin á þeim forsendum að ekki hafi verið rætt aftur við barnið eftir að nýjar upplýsingar hafi borist í málinu. Ekki hafi verið lagðar fyrir tillögur að heppilegum úrræðum fyrir barnið samkvæmt e-lið 3. mgr. 21. gr. sem og að málsmeðferð hafi farið fram úr þeim tíma sem tilgreindur sé í 4. mgr. 21. gr., en tilkynning hafi borist í lok apríl 2021 og lokið með tilkynningu um að máli væri lokið þann 23. september 2021. Nákvæmar dagsetningar liggi ekki fyrir en kærandi hafi óskað eftir gögnum máls sem ekki hafi borist.

Í athugasemdum kæranda, dags. 29. nóvember 2021, segir að málsmeðferðartími B hafi verið mun lengri en eðlilegt geti talist. Þrátt fyrir sumarfrí, sé ekki að sjá á gögnum málsins að málið hafi verið flókið í vinnslu eða að tíma hafi tekið að afla gagna en þrátt fyrir það fari málsmeðferðartíminn langt fram úr þeim tíma sem heimill sé samkvæmt 41. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt tilkynningarblaði hafi borist tilkynning þann 26. apríl 2021 til barnaverndar um tilfinningalegt/sálrænt ofbeldi. Bréfsefni um lokun máls samkvæmt barnaverndarlögum sé dagsett 23. september 2021 til kæranda en 24. september 2021 til móður. Málið hafi því tekið fimm mánuði í vinnslu. Reglur B um könnun og meðferð einstakra barnaverndarmála eða málaflokka hjá starfsmönnum Velferðarnefndar B kveði á um sömu tímalengd og barnaverndarlög og því sé ljóst að vinnsla Skóla- og velferðaþjónustu standist hvorki lög né reglur um tímalengd. Nafn föður og aðrar upplýsingar séu ekki fylltar út á tilkynningarblað barnaverndar.

Samkvæmt 45. gr. barnaverndarlaga beri að afhenda gögn til aðila máls. Kærandi hafi óskað eftir gögnum úr könnun máls og hafi það tekið um fimm vikur frá fyrsta tölvupósti með beiðni um aðgang að gögnum, með ítrekunum, að fá þau afhent og þar af leiðandi hafi kærandi ekki verið með upplýsingar um gögn málsins þegar hann hafi lagt fram kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála. Samkvæmt efnisyfirliti gagna, sem kærandi hafi fengið með þeim gagnapakka, hafi það verið öll gögn sem hafi orðið til við vinnslu málsins.

Efnisyfirlit þeirra gagna sem úrskurðarnefnd velferðarmála og kærandi hafi fengið séu ekki þau sömu. Hjá [úrskurðarnefnd velferðarmála] sé búið að bæta við dagálum kæranda, móður og barns, bæta við tölvupóstum frá kæranda og breyta orðalagi. Þetta fari gegn 45. gr. barnaverndarlaga, enda hafi kærandi aldrei verið upplýstur um að fleiri gögn væru til eða að sérstakur trúnaður þyrfti að ríkja um þau. Kæranda hafi ekki verið afhent eða upplýstur um að fleiri gögn hafi fundist í málinu við gerð greinargerðar fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála. Það sé greinilegt að ekki hafi verið um kerfisbundna skráningu að ræða þar sem kærandi og úrskurðarnefnd velferðarmála fái ekki sömu gögn.

Í gögnum til úrskurðarnefndar velferðarmála vanti þó fleiri gögn sem vitað sé að komu til vegna málsins en hafi ekki verið skráð, hvorki til kæranda eða til úrskurðarnefndarinnar, til að mynda tölvupósta frá kæranda. Í þeim tölvupóstum komi fram upplýsingar um líðan drengsins, til dæmis sjálfsvígshugsanir. Í tölvupóstum á milli foreldra séu til dæmis staðfestingar frá báðum foreldrum um orð drengsins um að deyja. Í athugasemdum kæranda er í kjölfarið vísað til þeirra tölvupósta frá kæranda til félagsráðgjafa sem ekki komi fram í gögnum.

Föðuramma drengsins hafi fyrst sent tölvupóst á starfsmann barnaverndar þann 29. mars 2021 og óskað eftir samtali. Hún hafi í kjölfarið átt símtal við starfsmann barnaverndar um áhyggjur sínar og hafi sent tölvupóst þann 23. apríl 2021 með lýsingum á alvarlegum aðstæðum og líðan drengsins. Hvorki samtölin né tölvupósturinn hafi verið skráð sem formleg tilkynning að tillögu starfsmanns barnaverndar en innihald þeirra hafi kærandi rætt í viðtölum við könnun málsins.

Samkvæmt upplýsingum kæranda hafi nafnlaus einstaklingur, sem eigi í nánum samskiptum við móður, haft samband við félagsþjónustu og/eða barnavernd og lýst yfir áhyggjum af aðstæðum drengsins og yngri bróður hans. Engin skráning eða gögn séu hjá barnavernd um það, þrátt fyrir að vitað sé að sá einstaklingur hafi oftar en einu sinni farið á fund vegna málsins.

Engin gögn liggi fyrir um samtal við sálfræðing barnsins sem hafi tilkynnt líðan drengsins. Ekki hafi verið óskað eftir upplýsingum frá viðkomandi sem sé titlaður sérfræðingur á tilkynningarblaði. Viðkomandi sálfræðingur hafi haft drenginn til meðferðar allan veturinn og átt samskipti við foreldra. Ekki verði séð að það sé íþyngjandi eða fari fram úr meðalhófi að fá skýrslu frá sérfræðingi sem sé með drenginn í meðferð og tilkynni líðan hans í samráði við foreldra eins og komi fram á tilkynningarblaði. Í gögnum til kæranda komi engar upplýsingar fram um samskipti við sálfræðinginn aðrar en tilkynningarblaðið. Í greinargerð um könnun máls sé ekkert vikið að áhyggjum eða faglegu mati sálfræðingsins. Sálfræðingurinn komi ekki fram í gögnum, að tilkynningarblaði undanskildu, fyrr en í greinargerð til [úrskurðarnefndar] velferðarmála.

Ekki hafi verið leitað upplýsinga hjá skóla drengsins eins og 11. gr. reglna B beri með sér sem og 44. gr. barnaverndarlaga og 19. gr. reglugerðar 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnavernd.

Í greinargerð um niðurstöðu könnunar sé gert minna úr þeim áhyggjum sem kærandi hafi lýst munnlega og skriflega við starfsmann barnaverndar. Í greinargerð til úrskurðarnefndar sé vitnað í tölvupósta frá kæranda og að hann hafi brugðist við, en upplýsingum úr þeim tölvupóstum hafi verið snúið við í tímaröð og hreinlega farið með rangt mál. Rétt sé að kærandi hafi upplýst sálfræðinginn um líðan drengsins í vor en í haust hafi kærandi ítrekað upplýst um versnandi líðan hans, án þess að drengurinn hefði aðgang að sálfræðingi. Í tölvupósti frá kæranda, dags. 27. maí 2021, komi fram beiðni um frekari sálfræðiþjónustu þar sem tímar á heilsugæslunni hafi verið að verða búnir. Tölvupóstar með ítrekunum um frekara inngrip hafi verið sendir er liðið hafi á vinnslu málsins. Minna sé gert úr þeim dæmum sem kærandi upplýsi um, svo sem sjálfsvígshugsanir, kvíða og þunglyndi og skaðleg samtöl móður við drenginn.

Í greinargerð um lokun máls halli verulega á kæranda og hlutleysis á milli foreldra sé ekki gætt. Staðhæfingar móður á hendur kæranda séu settar upp sem sannleikur, án þess að vera kannaðar. Lýsingar og skoðanir móður fái töluvert meira vægi og lengd í greinargerðinni en hjá kæranda sem og almennur mismunur gerður á milli foreldra. Í greinargerð um niðurstöðu könnunar sé til að mynda menntun og starfstitil móður tiltekin en ekki kæranda, en hann sé menntaður […] og starfi við […].

Viðtöl við drenginn hafi verið tekin 23. og 28. júní 2021. Viðtöl með fimm daga millibili gefi ekki heildstæða mynd af líðan eða framförum á aðstæðum drengsins. Niðurstaða málsins sé dagsett 13. september 2021, eða um tveimur og hálfum mánuði síðar. Kærandi hafi upplýst um að samskipti hefðu batnað fyrst eftir að barnavernd hafi byrjað könnun en versnað fljótt aftur og orðið mjög slæm. Það komi hvergi fram í greinargerð að kærandi hafi lýst þeim áhyggjum. Frá viðtölum við drenginn og þangað til niðurstaða fáist hafi barnavernd verið upplýst í tölvupóstum um sjálfsvígshugsanir og versnandi samskipti foreldra. Þann 8. júlí 2021 hafi kærandi sent á barnavernd og móður lýsingar á alvarlegum sjálfsvígshugsunum. Í tölvupósti frá kæranda þann 17. júlí 2021 komi fram upplýsingar um versnandi samskipti foreldra og dæmi um aðstæður drengsins sem og yngri bróður. Í tölvupóstsamskiptum á milli foreldra 27. ágúst 2021 komi fram upplýsingar um að drengurinn tali um að vilja deyja og sé að ræða það við móður sína með yngri bróður viðstaddan. Móðir staðfesti í tölvupósti að það hafi verið rætt. Í tölvupósti til barnaverndar 30. ágúst 2021 lýsi kærandi yfir miklum áhyggjum af líðan drengsins og þeirri vanlíðan sem hann búi yfir. Í tölvupóstinum komi fram dæmi um umræður á milli drengsins og móður þar sem móðir segi við drenginn að kærandi vilji stjórna drengnum, að kærandi hafi stjórnað móður, bannað móður að hitta fjölskyldu og vini, að kærandi hafi stundum verið vondur við móður.

Kærandi hafi einnig rætt munnlega við starfsmann barnaverndar um versnandi samskipti við móður og alvarleg einkenni um versnandi líðan drengsins. Þegar kærandi hafi óskað eftir gögnum hafi dagnótur hvorki verið skráðar með né skráning um að þau gögn væru til. Kærandi geti því ekki brugðist við því sem hafi verið skráð eða andmælt því.

Þau alvarlegu dæmi sem kærandi hafi sent á barnavernd um óviðeigandi og skaðlega orðræðu móður við barn hafi ekki verið rannsakaðar. Ekki hafi verið rætt við drenginn að nýju eftir að upplýsingar um sjálsvígshugsanir og versnandi líðan hafi verið gefnar. Barnavernd hafi fengið skriflegar og munnlegar ábendingar um sjálfsvígshugsanir, kvíða og þunglyndiseinkenni hjá drengnum en hafi ekki kannað þær nánar og byggi úrskurð sinn á viðtölum með fimm daga millibili tveimur og hálfum mánuði fyrir niðurstöðu. Kærandi hafi ekki fengið tækifæri til að andmæla greinargerð eða niðurstöðu könnunar. Miðað við fyrirliggjandi gögn virðist starfsmaður barnaverndar ákveða að hunsa alvarleika þeirra aðstæðna sem drengurinn sé í og valdi honum vanlíðan.

Barnavernd telji ekki ástæðu til að skoða heimilisaðstæður og hafi rangt eftir kæranda í greinargerð á neikvæðan máta um nýja sambúð hans. Sú fullyrðing í greinargerð vegna könnunar máls um að foreldrar njóti ekki þjónustu félagsþjónustunnar sé röng en móðir sé búin að hafa verktaka á vegum félagsþjónustunnar í heimaþjónustu og hafi notið þjónustunnar á meðan könnun máls hafi farið fram.

Lítið sé gert úr þeirri veikindasögu sem hafi verið á heimilinu og engra upplýsinga aflað um raunverulega stöðu móður eða föður. Móðir hafði […] í þrjá mánuði fyrir nokkrum árum og notið heimaþjónustu síðan þá og á meðan könnun máls hafi farið fram. Ekki hafi verið leitað staðfestinga hjá geðteymi H hvers vegna móðir hafi hætt í teyminu en orð móður um að líðan hennar hafi verið kæranda að kenna hafi verið látin standa. Ekki hafi verið rannsakað hvers vegna móðir segist vera fullfrísk og sé hætt í […] H stuttu eftir að hafa fengið örorkugreiðslur til þriggja ára samþykktar vegna […]. Barnavernd hafi ekki rannsakað hvort saga móður um […] og alvarleg veikindi gætu verið valdur að þeim samskiptavanda sem komi fram í tilkynningu frá sálfræðingi drengsins. Ekki hafi heldur verið rannsakað hvort veikindasaga móður gæti verið valdur að því að móðir væri að ræða óviðeigandi málefni við drenginn og valda honum vanlíðan með því.

Móðir fullyrði í greinargerð um könnun máls að kærandi hafi beitt hana andlegu ofbeldi og mikilli stjórnsemi og finnist mikilvægt að drengurinn verði ekki fyrir slíku. Ekki sé að sjá á þeim gögnum sem faðir hafi undir höndum að starfsmaður barnaverndar hafi leitast við að rannsaka þá fullyrðingu og þá hvort drengurinn væri að verða fyrir þess konar ofbeldi. Samkvæmt gögnum sem kærandi hafi fengið, hafi ekki verið leitað upplýsinga hjá til dæmis lögreglu eða heilbrigðisyfirvöldum um skráningu á ofbeldi þegar móðri og kærandi hafi verið gift en í greinargerð vegna könnunar máls komi fram ásakanir um andlegt ofbeldi á hendur kæranda. Starfsmaður barnaverndar hafi beðið kæranda munnlega um leyfi til að fá skýrslu úr sáttameðferð og hafi kærandi samþykkt það en þeirra upplýsinga hafi svo ekki verið aflað og hafi kærandi ekki fengið svar við því þegar hann spurði munnlega hvers vegna það hafi ekki verið gert. Ekki hafi verið leitað upplýsinga hjá P og upplifun sérfræðings þar á samskiptum foreldra, en foreldrar hafi leitað þangað saman. Félagsþjónusta I og sálfræðingur drengsins hafi hvatt móður og kæranda til að fara þangað til að bæta samskiptin en sérfræðingur P hafi sagt upp þjónustu eftir tölvupóst frá móður þar sem sérfræðingurinn hafi ekki talið forsendur fyrir frekari faglegri ráðgjöf eftir þann tölvupóst. Móðir hafi ítrekað neitað, skriflega einnig, að hitta kæranda hjá ráðgjafa og vinna með samskipti. Móðir hafi einnig neitað að panta tíma hjá sálfræðingi fyrir drenginn en kærandi hafi óskað eftir að drengurinn væri á biðlista á einkastofu.

Fullyrðingar starfsmanns barnaverndar um að foreldar séu tilbúnir til að sækja sér aðstoð fagaðila sem og að fá faglega aðstoð fyrir drenginn eigi sér ekki stoð, enda hafi móðir neitað því skriflega við kæranda.

Ekki sé hægt að sjá á vinnslu þessa máls að það standist ákvæði barnaverndarlaga um að mál séu nægjanlega upplýst fyrir ákvörðun þar sem engra ytri gagna hafi verið aflað til að kanna aðstæður drengsins. Upplýsingar kæranda um líðan drengsins séu hunsaðar og ekki kannaðar. Aðstæður drengsins í skóla, hjá móður eða kæranda séu hvorki kannaðar né leitað álits sérfræðinga, sem hafi komið að lífi drengsins, eða foreldra hans. Engin gögn liggi fyrir um skoðanir sálfræðings drengsins á líðan og aðstæðum hans annað en það sem komi fram í tilkynningarblaði.

Við vinnslu málsins hafi ekki verið gætt að því að afla upplýsinga, skrá upplýsingar frá aðilum sem komi að því né rannsaka og sannreyna það sem fyrir liggi. Aðstæður og líðan drengsins hafi ekki verið kannaðar. Heimilisaðstæður séu ekki kannaðar, þrátt fyrir ríka ástæðu, upplýsingar um versnandi líðan drengsins séu hunsaðar og ekki kannaðar með því til dæmis að óska eftir upplýsingum frá skóla og sálfræðingi. Sannleiksgildi orða kæranda eða móður sé hvorki rannsakað né aflað upplýsinga sem gætu skýrt þær ásakanir sem fari á milli foreldra.

Drengurinn sýni í hverjum mánuði meiri og alvarlegri merki um kvíða og þunglyndi, alvarleg vanlíðan hafi aukist og sé á þeim stað að vera meiri en eðlilegt geti talist. Sálfræðingur drengsins hefði ekki tilkynnt líðan hans nema vegna mikillar áhættu í líðan og aðstæðum drengsins. Drengurinn eigi orðið erfitt með svefn, sé myrkfælinn og fái ljótar martraðir. Drengurinn sé þjakaður af neikvæðum umræðum um að kærandi sé að segja ljóta hluti við móður sína og tali reglulega um að vilja skoða skilaboð á milli foreldra svo að hann geti dæmt um hvað sé rétt. Hann sé farinn að einangrast meira félagslega og eigi erfiðara með félagsleg samskipti, sérstaklega eftir skóla en á köflum í skólastofunni. Vanlíðanin sé orðin svo mikil að misskilningur eða lítið mótlæti valdi því að hann fari að gráta eða upplifi að verið sé að meiða hann.

Kærandi óski eftir því að úrskurðarnefnd velferðarmála vinni málið hratt og örugglega með hagsmuni drengsins að leiðarljósi þar sem öll bið hafi verulega neikvæðar afleiðingar á líðan hans.

Í athugasemdum kæranda, dags. 3. janúar 2022, segir kærandi að vissulega beri barnavernd að meta málefni hlutlaust og athuga stöðu foreldra á jafningjagrundvelli með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Hluti af könnun barnaverndar hjá aðskildum foreldrum vegna líðan barns geti þó leitt það í ljós að annað foreldri sé ábyrgt fyrir aðstæðum sem séu ekki í samræmi við foreldraábyrgð, til dæmis um andlegt öryggi. Í öðrum tilvikum geti báðir foreldrar verið jafn ábyrgir en aðstæður barna þurfi að vera kannaðar fyllilega til þess að niðurstaða fáist þar sem hagsmunir barnsins séu númer eitt. Þrátt fyrir góðan vilja til að gæta hlutleysis geti einstaklingar, fagaðilar, fallið í þá ómeðvituðu gryfju að taka afstöðu með öðrum aðilanum.

Ferill málsins beri með sér að hlutleysis hafi ekki verið gætt gagnvart kæranda. Ábendingar kæranda um líðan, sjálfsvígshugsanir drengs ásamt dæmum um óviðeigandi umræðu móður við drenginn hafi verið með öllu hunsaðar. Tölvupóstar með dæmum og lýsingum hafi verið sendir eftir viðtöl við drenginn.

Afhent gögn til kæranda og úrskurðarnefndar, þar á meðal efnisyfirlit og orðalag, séu ekki eins. Kærandi hafi enn ekki fengið afhent þau gögn sem hafi bæst við þegar úrskurðarnefnd hafi fengið send gögn til sín. Tölvupóstar með mikilvægum ábendingum um líðan og aðstæður drengsins hafi ekki verið skráðir gögn málsins þegar kærandi hafi fengið gögnin afhent en búið sé að bæta þeim við til úrskurðanefndar. Orðalag efnisyfirlits, þrátt fyrir að það sé ekki staðlað, eigi ekki að breytast á milli aðila, enda eigi öll gögn að liggja eins fyrir aðila málsins. Kærandi geti ekki gert nema takmarkaðar athugasemdir við vinnslu málsins þar sem hann hafi ekki sömu gögn og aðrir.

Kærandi hafi engin gögn um símtal til sálfræðings né virðist það vera skráð hvenær það hafi átt sér stað eða hvert innihald þess samtals hafi verið. Faglegt mat meðferðaraðila sé ítarlegra en komi fram á tilkynningarblaði og því með öllu óeðlilegt að ekki hafi verið óskað eftir gögnum frá sálfræðingnum. Kærandi þakki fyrir afsökunarbeiðni á tímalengd við afhendingu gagna en það sé óeðlilegt að afhending gagna taki svona langan tíma og að enn sé ekki búið að uppfylla þá skyldu barnaverndar að afhenda gögn til aðila málsins. Starfsmaður barnaverndar hafi við vinnslu málsins valið úr hvaða gögn hafi áhrif á vinnslu málsins og hvaða gögn ekki, en eins og komið hafi fram hafi þau gögn tekið breytingum eftir hverjum sé verið að afhenda þau.

Dagálar hafi ekki verið skráð gögn þegar kærandi hafi fengið gögnin afhent heldur hafi einn dagáll verið valinn úr fyrir kæranda og annar fyrir móður. Ef greinargerð um niðurstöðu könnunar sé orðrétt upp úr dagálum sé spurt af hverju hafi þeir verið sendir úrskurðanefnd velferðarmála. Það veki upp áleitnar spurningar um að gögn taki breytingum á milli aðila, valdir dagálar séu settir í gögn til kæranda og aðrir ekki afhentir þegar gögnin komi fram og búið að tilgreina og biðjast afsökunar á því að þeir hafi ekki verið afhentir upphaflega.

Rétt sé að greinargerð könnunar hafi í heild sinni verið lesin fyrir kæranda í viðtali en hann hafi ekki fengið tækifæri sjálfur til yfirlestrar greinargerðar. Kæranda hafi ekki verið gefið tækifæri til að gera athugasemdir, hvorki munnlega né skriflega. Kærandi hafi einnig ekki fengið að gera athugasemdir áður en niðurstaða könnunar hafi verið ákveðin.

Hringt hafi verið í kæranda og honum sagt að einstaklingur hefði fyrir mörgum mánuðum farið á fleiri en einn fund hjá barnavernd eða félagsþjónustunni í I og lýst yfir áhyggjum sínum af aðstæðum drengsins og yngri bróður hans. Kærandi hafi ekki gögn til að staðfesta það en telji ólíklegt að hringt sé í hann til að ljúga þess háttar hlutum að honum. Ef þeir fundir hafi farið fram hafi það þá kannski ekki verið skráð sem tilkynning vegna ráðleggingar starfsmanns barnaverndar, líkt og hjá föðurömmu drengsins.

Í greinargerð um niðurstöðu könnunar máls sé tiltekið að „...nefnir að hún sé ekki sátt við að [drengur] lesi ekki hjá pabba sínum en ekki sé fyllt út í lestramöppu hans en hún virðist ein um að fylla út í hana.“ Þetta sé til dæmis dæmi um að annað foreldri sé ekki að uppfylla forsjárskyldu sína og því eðlilegt að leita upplýsinga hjá skóla. Upplýsingar úr skóla gætu til dæmis einnig varpað ljósi á hvort líðan drengs hafi breyst yfir veturinn eða hvort líðan sé mismunandi eftir dögum. Könnun máls hafi byrjað að vori fyrir sumarleyfi og hafi klárast að hausti eftir að skóli hafi byrjað á ný.

Starfsmaður barnaverndar tiltaki að ákvörðun um lokun barnaverndarmáls sé matskennd ákvörðun sem byggist á öllum fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum en ekki afstöðu foreldra. Engra ytri gagna hafi verið aflað við könnun á málinu miðað við þau gögn sem kærandi hafi í höndunum. Niðurstaðan byggi á tveimur viðtöðum við drenginn með fimm daga millibili, tveimur og hálfum mánuði áður en niðurstaðan sé kynnt foreldrum. Kærandi spyrji hvort það sé eitthvað annað en að ákvörðun hafi verið byggð upp á afstöðu foreldra.

Ábendingar kæranda um neikvæðar samræður móður við dreng og þá vanlíðan sem drengurinn hafi upplifað af því, hafi ekki verið kannaðar með viðtali. Ábendingar kæranda um alvarlegar sjálfsvígshugsanir drengsins hafi ekki verið kannaðar með viðtali við drenginn eftir að þær hafi komið fram. Ítrekaðar beiðnir kæranda um aðstoð fyrir drenginn hafi ekki verið sinnt og því miður sjái kærandi sig tilneyddan til að taka fram að hann hafi aldrei óskað eftir að barnavernd greiddi neinn kostnað fyrir drenginn, hann hafi óskað eftir að fá aðstoð við að koma drengnum í viðeigandi stoðþjónustu. Fullyrt sé að móðir hafi hug á að sækja heilbrigðisþjónustu fyrir drenginn og sé tilbúin að fara í ráðgjöf með kæranda til að bæta samskiptin, raunin sé þó önnur síðustu mánuði. Móðir hafi sagt við kæranda að drengurinn þurfi ekki sálfræðing, hafi einnig sagst vera tilbúin að panta tíma hjá sálfræðingi en sendi engar upplýsingar um að það sé gert. Þá hafi kærandi undir höndum staðfestingu á því að móðir hafi komið í veg fyrir að drengurinn fengi að fara á einkastofu til sálfræðings sem kærandi hafði bókað. Þó sé rétt að tilgreina að þann 3. janúar 2022, þremur mánuðum eftir beiðni kæranda til móður um að panta endurkomutíma hjá sálfræðingi heilsugæslunnar, hafi komið tölvupóstur frá sálfræðingnum um að móðir og kærandi hefðu haft samband og að drengurinn fengi tíma 10. janúar 2022.

Um fyrri samskipti á milli foreldra hefði auðveldlega verið hægt að afla gagna hjá þeim sérfræðingum sem foreldrar höfðu sótt þjónustu hjá, en margreynt hafi verið að bæta samskipti með aðstoð fagaðila, án árangurs.

Vissulega skuli gæta meðalhófsreglu við vinnslu máls en samkvæmt gögnum kæranda hafi ekki verið kallað eftir gögnum frá neinum aðila sem komið hafi að málefnum drengsins eða foreldra hans. Þó að meðalhófsreglu sé gætt skuli barnið ávallt njóta vafans og frekar skuli afla fleiri gagna en færri.

III.  Sjónarmið B

Í greinargerð B kemur fram að kæran lúti að ákvörðun B um að loka barnaverndarmáli sem varði barnið C, í kjölfar könnunar í málinu. Af hálfu B sé ekki talið tilefni til beitingar úrræða samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga nr. 80/2002 vegna barnsins og hafi barnaverndarmálinu því verið lokað í kjölfar könnunar.

Upphaf vinnslu barnaverndarmálsins megi rekja til tilkynningar sálfræðings barnsins, dags. 26. apríl 2021, til barnaverndar. Tilkynningin hafi verið send barnavernd í samráði við foreldra þar sem óskað hafi verið eftir því að foreldrar fái stuðning við að komast að niðurstöðu um málefni barnsins en í tilkynningunni komi fram að langvarandi ósætti og skortur á samvinnugrundvelli um hagsmuni barnsins væri farið að koma niður á líðan barnsins. Félagsráðgjafi barnaverndar hafi haft samband við sálfræðinginn vegna tilkynningarinnar til þess að staðfesta móttöku hennar og gefa tilkynnanda almennar upplýsingar um málsmeðferð vegna tilkynningarinnar, sbr. 4. mgr. 21. gr. barnaverndarlaga, auk upplýsingaöflunar. Sérstaklega hafi verið tiltekið í tilkynningu að foreldrar væru ekki að sækja faglega aðstoð vegna samskiptavanda en að þau hefðu verið í ráðgjöf varðandi samskipti hjá P sem hefði ekki borið árangur.  Þann 27. apríl 2021 hafi framangreind tilkynning verið tekin fyrir á meðferðarfundi barnaverndar og ákveðið að hefja könnun í málinu samkvæmt 1. mgr. 21. gr. barnaverndarlaga.  Á meðferðarfundinum hafi ekki verið talin þörf á að skipa barni talsmann að svo stöddu.

Þar sem í tilkynningu hafi einungis komið fram áhyggjur af líðan barns vegna samskiptavanda foreldra en ekki áhyggjur af aðbúnaði barns eða almennum aðstæðum á heimili foreldra hafi könnun málsins fyrst og fremst snúið af upplýsingaöflun hjá foreldrum og barni, auk þess sem upplýsinga hafi verið aflað hjá tilkynnanda. Félagsráðgjafi barnaverndar hafi átt fjögur viðtöl við móður, fimm viðtöl við kæranda, auk símtala við þau bæði. Þá hafi verið tekin tvö viðtöl við barnið. Nánari upplýsingar um dagsetningar og efni viðtala komi fram í greinargerð um niðurstöðu könnunar, dags. 13. september 2021, en vinnsla könnunar hafi dregist vegna sumarleyfa.

Niðurstaða könnunar, sbr. greinargerð, dags. 13. september 2021, sé sú að könnun barnaverndar hafi ekki leitt í ljós þá vanlíðan barnsins sem lýst hafi verið í tilkynningu til barnaverndar, dags. 26. apríl 2021, og málinu hafi því verið lokað án tillagna að úrræðum barnaverndar.  Félagsráðgjafi barnaverndar hafi átt tvö viðtöl við barnið og hafi barnið virst eiga gott með að tjá sig í báðum viðtölum, barnið hafi rætt við félagsráðgjafa um líðan sína en ekkert hafi komið fram í viðtölunum sem bent hafi til vanlíðanar barnsins, þó hefði barnið rætt um breytingu á líðan sinni til hins betra í kjölfar breyttra samskipta á milli foreldra en samskipti foreldra höfðu að nær öllu leyti færst yfir í tölvupóstsamskipti. Á tölvupóstum á milli foreldra, sem faðir hafi áframsent til barnaverndar, megi sjá að foreldra greini enn á um ýmis atriði sem snúi að barninu.  Af hálfu barnaverndar hafi verið áréttað við foreldra mikilvægi þess að foreldrar leituðu áfram lausna á forsjár- og umgengnisdeilu sinni en áhersla hafi verið lögð á það að þau héldu drengnum utan við deilumál sín. Sáttameðferð á vegum sýslumanns hafi verið yfirstandandi á meðan málið hafi verið í könnun og foreldrar hafi báðir lýst yfir vilja til að fá ráðgjöf frá utanaðkomandi aðila að sáttameðferð lokinni.

Við vinnslu könnunar barnaverndar í málinu hafi verið aflað allra nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barnsins. Ljóst hafi verið að það hafi verið mat tilkynnanda, sem hafði haft barnið í sálfræðimeðferð, að slæm samskipti foreldra kæmu niður á líðan barnsins sem sé ekki óalgengt þegar foreldrar gangi í gegnum skilnað. Það hafi jafnframt verið niðurstaða félagsráðgjafa barnaverndar í kjölfar viðtala við foreldra og barn að barnið hafi upplifað vanlíðan í kjölfar slæmra samskipta á milli foreldra. Í viðtölum við félagsráðgjafa hafi drengurinn sjálfur upplýst að líðan hans væri breytt þar sem foreldrar hans rifust ekki eins mikið og áður sem hafi einnig verið staðfest í viðtölum við móður. Það hafi því verið mat barnaverndar að ekki væri þörf á úrræðum samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga, enda hafi könnun leitt í ljós að líðan barnsins væri betri. Við könnun hafi verið gætt að því að vinnsla málsins yrði ekki umfangsmeiri en þörf krefði og ekki væri aflað upplýsinga umfram það sem nauðsynlegt þætti, sbr. 2. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga, sbr. 1. mgr. 21. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 56/2004. Markmið könnunarinnar hafi fyrst og fremst verið að varpa ljósi á líðan barnsins þannig að mat gæti farið fram á því hvort þörf væri á frekari afskiptum barnaverndar. Það skuli þó bent á að vanlíðan barna kalli ekki sjálfkrafa á afskipti barnaverndar en það sé hluti af forsjárskyldum foreldra að huga að líðan barna sinna og leita til lækna eða annarra fagaðila ef á þurfi að halda. Afskipti barnaverndar af málefnum fjölskyldna geti verið íþyngjandi fyrir fjölskyldur og því séu barnaverndarmál ekki opin, nema ástæða sé til og skilyrði laga uppfyllt.  Meðalhófsreglan sé ein af grunnreglum barnaverndarstarfs og gildi hún gagnvart foreldrum en ekki síst gagnvart börnunum en það geti verið mjög íþyngjandi fyrir þau að þriðji aðili sé með afskipti af þeirra daglega lífi, sérstaklega eftir því sem þau verði eldri.

Í kæru komi fram að það sé mat kæranda að ekki hafi verið aflað nauðsynlegra upplýsinga af hálfu barnaverndar, án þess að tilgreint sé af hálfu kæranda hvaða frekari upplýsinga hefði átt að afla, að hans mati. Í kæru sé enn fremur gagnrýnt að aðbúnaður á heimili barnsins hafi ekki verið kannaður en bent sé á að tilkynning hafi lotið að líðan barns vegna samskiptavanda foreldra en ekki aðbúnaði barns á heimili. Undir könnun málsins hafi ekkert komið fram sem hafi bent til þess að aðbúnaði barnsins á heimili foreldra væri ábótavant þótt foreldrarnir, sem eigi í forsjár- og umgengnisdeilum, hafi haft athugasemdir varðandi aðbúnað barnsins hjá hvort öðru. Í viðtölum félagsráðgjafa við barnið hafi ekkert komið fram sem hafi gefið tilefni til þess að kanna aðbúnað á heimilum foreldra frekar eða kanna önnur atriði sem snúi að barninu. 

Við vinnslu barnaverndarmála þurfi barnavernd ávallt að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og almennum óskráðum reglum stjórnsýsluréttar, svo sem meðalhófsreglu, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga og 12. gr. stjórnsýslulaga, sem feli í sér skyldu barnaverndar til þess að beita þeim vægustu ráðstöfunum sem tæk séu til þess að ná markmiðum og að einungis skuli taka íþyngjandi ákvarðanir þegar lögmætu markmiði verði ekki náð með vægara móti og skuli þá ekki fara strangara í sakirnar en nauðsyn beri til. Almennt verði að telja afskipti barnaverndar af málefnum fjölskyldna vera íþyngjandi fyrir börn og foreldra. Barnaverndarlög geri ráð fyrir upplýsingaöflun barnaverndar um persónuleg málefni fjölskyldna en sérstaklega sé þar tiltekið að upplýsingaöflun megi ekki vera umfangsmeiri en tilefni sé til, en auk þess sé þar kveðið á um könnunargreinargerð með mati stjórnvalds á því hvort þörf sé á afskiptum barnaverndar af réttindum aðila sem tryggð séu í stjórnarskrá, svo sem friðhelgi einkalífs. Ákvörðun um að loka barnaverndarmáli vegna drengsins hafi meðal annars verið tekin með tilliti til meðalhófsreglu en það hafi verið mat barnaverndar að ekki væri nauðsynlegt að barnavernd hefði afskipti af málefnum barnsins í ljósi þess að líðan barnsins hafi verið betri og foreldrar reiðubúnir til að sækja frekari aðstoð fagaðila, ef á þyrfti að halda. Þá höfðu foreldrar sótt aðstoð hjá fagaðilum fyrir barnið vegna vanlíðanar þess en tilkynning til barnaverndar hafi komið frá meðferðaraðila barnsins. Vanlíðan barnsins hafi, að mati sálfræðings barnsins, meðal annars verið sprottin af samskiptavanda foreldra sem létu samskiptavanda sinn bitna á barninu. Þegar könnun hafi lokið hafi samskipti foreldra nær eingöngu farið fram í gegnum tölvupóst og barninu hafi verið farið að líða betur.

Varðandi tilgreiningu í kæru á nýjum upplýsingum sem í kæru greini að hafi borist til barnaverndar eftir að könnun málsins hafi byrjað, sé ekki alveg ljóst til hvaða upplýsinga kærandi sé að vísa en telja megi að um sé að ræða tölvupóst frá kæranda sjálfum, dags. 14. maí 2021, þar sem hann lýsi áhyggjum sínum af líðan drengsins í kjölfar þess að yngri bróðir hans hafi upplýst kæranda um að hann hefði heyrt eldri bróður sinn segjast vilja drepa sig.  Tölvupósturinn hafi lotið að sama efni og tilkynning til barnaverndar hafi fjallað um, það er vanlíðan drengsins. Fram komi í tölvupóstinum að kærandi hefði rætt við drenginn og fram komi að drengurinn hafi sagst hafa upplifað meiri vanlíðan fyrir nokkru síðan og liði ekki svona núna. Þá komi fram að kærandi hafði brugðist við og sent skilaboð til sálfræðings drengsins. Kærandi kunni einnig að hafa verið að vísa til tölvupósts síns til barnaverndar, dags. 8. júlí 2021, þar sem hann upplýsi um að barnið hafi lýst vanlíðan og sjálfsvígshugsunum fyrir honum. Kærandi hafi brugðist við þessari vanlíðan barnsins með því að ræða við barnið og samkvæmt því sem fram komi í tölvupóstinum hafi barninu strax liðið betur eftir að hafa rætt málið við kæranda. Þessar upplýsingar frá kæranda séu í samræmi við annað sem komi fram í málinu, það er að líðan barnsins sé betri en einnig að kærandi hafi brugðist við með því að upplýsa sálfræðing barnsins um þessa vanlíðan barnsins. Að mati barnaverndar hafi ekki verið sérstakt tilefni til þess að ræða frekar við drenginn um þetta en greinargóðar upplýsingar hafi legið fyrir frá kæranda um að hann hefði rætt við drenginn í bæði framangreind skipti og að líðan drengsins væri betri. Það hafi verið mat barnaverndar að þessar upplýsingar gæfu ekki sérstakt tilefni til frekari afskipta barnaverndar af málefnum drengsins.

Í viðbótargreinargerð B, dags. 12. desember 2021, segir að vegna athugasemda kæranda við skráningu upplýsinga í barnaverndarmálinu þá telji B að skráning upplýsinganna hafi verið með fullnægjandi hætti og í samræmi við 42. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 33. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 56/2004. Allar upplýsingar sem hafi haft áhrif á málið hafi verið skráðar niður og vistaðar meðal gagna málsins, þar með taldir tölvupóstar þeir sem hafi haft áhrif á niðurstöðu málsins. Félagsráðgjafa barnaverndar hafi borist mikið magn tölvupósta vegna vinnslu málsins, svo sem afrit af tölvupóstsamskiptum á milli foreldra og fleira, en meðfylgjandi séu þeir tölvupóstar sem kærandi geri athugasemdir vegna. Beðist sé velvirðingar á að allir tölvupóstar hafi ekki verið afhentir kæranda en efni þeirra pósta sem hafi láðst að afhenda hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu barnaverndarmálsins. Kærandi hafi þó auðvitað haft afrit þessara gagna í pósthólfi sínu. Þá sé bent á varðandi athugasemdir kæranda um breytingu á orðalagi í efnisyfirliti gagnanna, annars vegar til úrskurðarnefndar og hins vegar til kæranda, sé engu að síður um sömu gögn að ræða þótt orðalag efnisyfirlita sé ekki með öllu samhljóða, enda séu þau ekki stöðluð og notuð til að skýra hvaða gögn séu meðfylgjandi en hafi ekki sjálfstæða þýðingu við vinnslu málsins.

Varðandi athugasemdir kæranda um að tölvupóstar frá móður kæranda til barnaverndar í mars og apríl 2021 séu ekki skráðir meðal gagna málsins, sé bent á að tölvupóstarnir báðir hafi borist áður en barnaverndarmálið hafi byrjað hjá barnavernd og hafi efni þeirra ekki verið talið hafa þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Í tölvupóstunum hafi ekki falist tilkynningar til barnaverndar og leyst hafi verið úr erindunum með leiðbeiningum til sendanda.

Varðandi athugasemdir kæranda um afhendingu á gögnum til hans, skuli upplýst að ekki hafi verið úrskurðað um takmarkaðan aðgang kæranda að gögnum. Gögn málsins og greinargerð könnunar hafi verið kynnt foreldrum 22. og 24. september síðastliðinn. Þar hafi greinargerð könnunar verið lesin yfir í heild sinni, auk þess sem niðurstaða hafi verið kynnt hvoru foreldri fyrir sig í viðtali hjá félagsráðgjafa. Foreldrum hafi verið gefinn kostur á að ræða efni greinargerðar könnunar og gera athugasemdir. Í kjölfarið hafi foreldrum verið send bréf með niðurstöðu könnunar og leiðbeiningum um kæruleiðir. Afhending gagna málsins hafi því miður dregist vegna anna hjá B og beðist sé velvirðingar á því.

Í erindi kæranda til úrskurðarnefndarinnar séu einnig gerðar athugasemdir við að fleiri gögn hafi verið send úrskurðarnefnd velferðarmála heldur en kærandi hafi fengið afhent. Þessi gögn sem kærandi vísi til séu dagálar og tölvupóstar til félagsráðgjafa sem hafi farið með vinnslu málsins en í umræddum dagálum séu engar viðbótarupplýsingar umfram það sem fram komi í greinargerð könnunar, enda sé greinargerðin unnin nánast orðrétt upp úr dagálunum.  Upplýsingar í dagálum hafi því þegar verið skráðar í önnur skjöl málsins og hafi því ekki þótt ástæða til þess að afhenda þær skráðu upplýsingar tvisvar, en tekið hafi verið tillit til þessara athugasemda kæranda og sé það ef til vill vandaðra verklag að afhenda jafnframt dagálana, enda meðal skráðra gagna í málinu. Varðandi tölvupósta frá kæranda til félagsráðgjafa barnaverndar sem kærandi geri athugasemdir við að hafi ekki fylgt gögnum til sín, séu þeir meðfylgjandi erindi þessu en það séu gögn sem kærandi hafi þegar verið með undir höndum, enda hafi það verið samskipti við hann sjálfan.

Í athugasemdum kæranda sé sérstaklega bent á að ekki séu skráðar upplýsingar í málinu frá einstaklingi sem kærandi kalli nafnlausan og fullyrt að viðkomandi einstaklingur hafi átt fundi vegna barnaverndarmálsins. Félagsráðgjafi barnaverndar, sem hafi farið með vinnslu barnaverndarmálsins, kannist ekki við þessa atvikalýsingu kæranda eða að hafa móttekið upplýsingar í málinu frá einstaklingi undir nafnleynd. Engar upplýsingar eða tilkynningar hafi borist undir nafnleynd í barnaverndarmálinu.

Varðandi gagnrýni kæranda vegna þess að ekki hefði verið kallað eftir frekari upplýsingum frá sálfræðingi drengsins, sé bent á að tilkynning hafi komið frá sálfræðingnum sem hafi innihaldið þau atriði sem sálfræðingurinn hafi talið þörf á. Þá hafi félagsráðgjafi barnaverndar átt símtal við sálfræðing barnsins vegna tilkynningarinnar en engar upplýsingar umfram það, sem komi fram í tilkynningu, komi fram í samtalinu. Varðandi gagnrýni kæranda vegna þess að ekki hafi verið kallað eftir gögnum frá skóla, hafi það verið talið óþarft, enda hafi legið fyrir upplýsingar um vanlíðan barnsins frá sálfræðingi. Þá sé einnig bent á að grunnskólar séu tilkynningarskyldir aðilar samkvæmt 2. mgr. 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og engin tilkynning hafi borist þaðan til barnaverndar. Það hafi verið mat barnaverndar að gögn frá skóla myndu ekki bæta við fyrirliggjandi upplýsingar frá meðferðaraðila drengsins. Þá hafi könnun málsins staðið yfir þegar sumarleyfi hafi verið í skólanum og hafi viðtöl við drenginn þótt gefa glögga mynd af líðan hans. Í tilefni af því sem fram komi í kæru, sé bent á að við vinnslu barnaverndarmála sé barnavernd ekki skylt að afla gagna frá skóla við vinnslu barnaverndarmála. Öflun gagna sé háð mati barnaverndar og skuli hún vera í samræmi við meðalhófsreglu þar sem ekki sé kallað eftir meiri eða ítarlegri upplýsingum en nauðsynlegt sé.

Vegna fyrirliggjandi athugasemda kæranda um að við vinnslu málsins hefði á einhvern hátt verið tekin afstaða með móður gegn kæranda, þyki einnig rétt að taka fram að við vinnslu barnaverndarmála sé ekki tekin afstaða með foreldrum eða gegn foreldrum. Það hafi engin afstaða verið tekin með móður, þrátt fyrir fullyrðingar kæranda um það. Ákvörðun um lokun barnaverndarmáls sé matskennd ákvörðun sem byggist á öllum fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum í málinu en ekki afstöðu foreldra til þess. 

Varðandi athugasemdir frá kæranda um að veikindasaga foreldra hafi ekki verið könnuð nánar, hafi barnavernd ekki talið ástæðu til þess að kalla eftir upplýsingum úr sjúkraskrám foreldra, enda hafi tilkynning til barnaverndar lotið að vanlíðan barnsins. Kærandi geri sérstakar athugasemdir við að ekki hafi verið aflað upplýsinga um innlagnir móður á geðdeild fyrir nokkrum árum og um lok þjónustu til hennar hjá geðteymi. Með vísan til meðalhófsreglu sé við vinnslu barnaverndarmála almennt ekki kallað eftir upplýsingum úr sjúkraskrám aðila, nema ástæða sé til og það sama gildi um vinnslu mála hjá lögreglu. Upplýsingar um yfirstaðin veikindi foreldra og/eða ásakanir á milli foreldra um ofbeldi þegar þau hafi verið gift, hafi ekki verið taldar hafa áhrif á vinnslu barnaverndarmáls eða niðurstöðu könnunar og á það sama við um skýrslu úr sáttameðferðum foreldra. Í samskiptum félagsráðgjafa barnaverndar hafi ekkert komið fram sem hafi bent til þess að hún myndi ekki sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu fyrir barnið.

Af gögnum málsins sé ljóst að foreldrar eigi í ýmsum deilum sín á milli um ýmis atriði er varði drenginn. Það sé hins vegar ekki á forræði barnaverndar að leysa þær deilur og geti ekki verið ástæða þess að halda barnaverndarmálinu í vinnslu. Foreldrar drengsins beri forsjárskyldur sínar gagnvart drengnum og hafi það verið mat barnaverndar að ekki væri þörf á beitingu úrræða samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002 vegna drengsins en forsjáraðilar drengsins geti ávallt leitað heilbrigðisþjónustu vegna vanlíðanar drengsins. Það sé hluti af forsjárskyldum foreldra að leita heilbrigðisþjónustu fyrir börn sín og ekki hlutverk barnaverndar að leita eftir slíkri þjónustu eða greiða fyrir hana í stað foreldra.

VI.  Niðurstaða

Drengurinn C er rúmlega X ára gamall sonur kæranda. Mál drengsins hófst vegna tilkynningar frá sálfræðingi hans þann 26. apríl 2021 um tilfinningalegt/sálrænt ofbeldi. Með hinni kærðu ákvörðun B var ákveðið að loka barnaverndarmáli drengsins í kjölfar könnunar máls.

Kærandi telur að B hafi ekki aflað nauðsynlegra gagna við könnun máls og hafi hunsað alvarleg teikn um að andlegri heilsu barnsins væri hætta búin. Kærandi telur könnun máls ekki vera fullnægjandi út frá upplýsingum sem barnavernd hafi haft undir höndum, sbr. 22. gr. bvl., og þá hafi málsmeðferðartími farið fram úr þeim tíma sem mælt sé fyrir um í barnaverndarlögum.

Kærandi álítur að málsmeðferð barnaverndar á könnun máls sonar kæranda hafi dregist úr hófi og barnaverndaryfirvöld hafi gerst brotleg við ákvæði barnaverndarlaga. Samkvæmt 2. mgr. 41. gr. bvl. kemur fram sú meginregla að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefur og henni skuli hraðað svo sem kostur er. Í ákvæðinu kemur jafnframt fram að ákvörðun um beitingu viðeigandi úrræða skuli að jafnaði liggja fyrir innan þriggja mánaða og eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að ákvörðun var tekin um að hefja könnun. Fyrir liggur að barnavernd ákvað að hefja könnun í málinu þann 27. apríl 2021 og lauk málinu með greinargerð þann 13. september 2021. Barnavernd hefur borið því við að könnun máls hafi dregist vegna sumarleyfa en fyrir liggur að málsmeðferðartími var um fjórir og hálfur mánuður. Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd velferðarmála ekki tilefni til að gera athugasemdir við málshraða barnaverndar í málinu.

Í 1. mgr. 41. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessu er reynt að tryggja að ákvarðanir nefndarinnar séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni. Ekki verða settar fram nákvæmar reglur um það hvernig staðið skuli að könnun máls og hverra gagna skuli aflað, enda er það matsatriði og breytilegt eftir eðli máls hverju sinni. Í því sambandi ber þó að gæta að 2. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og skuli henni hraðað svo sem kostur er. Í þessu felst meðal annars að barnaverndarnefnd skuli ekki ganga lengra í gagnaöflun og könnun máls hverju sinni en nauðsynlegt er. Í þessu felst einnig að ekki séu notaðar harkalegri aðferðir við könnun máls og öflun gagna en efni standa til.

Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal barnaverndarnefnd kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarnefnda, skyldu til að láta barnaverndarnefndum í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd almennt gilda ákvæði VIII. kafla bvl.

Við úrlausn málsins ber úrskurðarnefndinni að leysa úr því hvort B hafi réttilega metið það svo að ekki væri þörf á að hafa frekari afskipti af málefnum drengsins og því hafi borið að loka því með vísan til 1. mgr. 23. gr. bvl.

Samkvæmt gögnum málsins hefur langvarandi ágreiningur verið á milli foreldra drengsins og hafa deilur þeirra meðal annars haft þær afleiðingar að drengurinn upplifir mikla vanlíðan. Ákvörðun B um að loka málinu virðist meðal annars byggja á því að staða drengsins hafi batnað á síðustu mánuðum og í ljósi þess hafi ekki verið ástæða til að vinna málið frekar á grundvelli barnaverndarlaga. Samkvæmt gögnum málsins voru tekin viðtöl við drenginn þann 23. og 28. júní 2021 þar sem drengurinn hafi upplýst sjálfur að líðan hans væri breytt þar sem foreldrar hans rifust ekki jafn mikið og áður. Í tölvupóstum frá kæranda til barnaverndar, dagsettum 8. og 17. júlí og 30. ágúst 2021, lýsti hann áhyggjum sínum vegna vanlíðanar drengsins, auk þess sem greint er frá áframhaldandi samskiptavanda foreldra drengsins.

Með hliðsjón af framansögðu telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið tímabært að loka máli drengsins þar sem sterkar vísbendingar eru um að drengurinn sé þvert á móti enn í erfiðri stöðu. Úrskurðarnefndin telur því að málið hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti áður en tekin var ákvörðun í því og kveðið er á um í 1. mgr. 41. gr. bvl., sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til þess telur úrskurðarnefndin að fella beri úr gildi hina kærðu ákvörðun B. Málinu er vísað til nýrrar meðferðar B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun B, dags. 23. september 2021, um að loka máli vegna drengsins C, er felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar B.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum